Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 459. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 739  —  459. mál.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 160/2011, um svæðisbundna flutningsjöfnun (gildistími og framkvæmd styrkveitinga).


Frá meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið.
    Frumvarp um svæðisbundna flutningsjöfnun var fyrst lagt fram haustið 2011 á 140. löggjafarþingi. Í frumvarpinu var lagt til að gildistíminn miðaðist við gildistíma byggðakorts ESA, 2008–2013 eða í tvö ár, en fyrir lok árs 2013 yrðu lögin endurskoðuð. Frumvarpið var samþykkt á Alþingi 17. desember 2011 með þeim breytingum að gildistíminn var styttur úr tveimur árum í eitt ár og fleiri svæði felld undir svæði 2 þar sem heimilt er að endurgreiða 20% af flutningi á vörum ef lengd ferðar er meiri en 390 km. Í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar kemur fram að meiri hlutinn telji: „rétt að leggja það til og telur það nauðsynlegt að ráðuneytið fylgist náið með þróun flutningskostnaðar á þeim tíma og leggi til breytingar á reglum um svæðisbundna flutningsjöfnun ef þróunin gefur tilefni til þess“. Frumvarp um breytingu á lögunum er því samið á grundvelli álits meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.
    Í athugasemdum við frumvarpið segir að í gildandi lögum sé kveðið á um að umsóknum um styrki vegna flutningskostnaðar sé skilað til ráðuneytis en að í frumvarpinu sé lagt til að umsóknir berist til Byggðastofnunar sem jafnframt annist afgreiðslu umsókna og endurgreiðslur vegna flutningskostnaðar. Þá segir að það sé talið vera meira í samræmi við hlutverk stofnana að annast umsýslu umsókna en ráðuneyta. Þá falli svæðisbundin flutningsjöfnun að öðru leyti vel að hlutverki og verkefnum Byggðastofnunar um eflingu byggðar og atvinnulífs á landsbyggðinni. Áfram þyki rétt að leggja til að gildistími laganna miðist við byggðakort ESA eða til 31. desember 2013. Samkvæmt athugasemdunum upplýsti ráðuneytið atvinnuþróunarfélög, helstu flutningafyrirtæki og Byggðastofnun um vinnslu frumvarpsins og gaf þeim kost á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 13. desember 2012.



Guðfríður Lilja Grétarsdóttir,


form., frsm.


Björgvin G. Sigurðsson.


Skúli Helgason.



Álfheiður Ingadóttir.


Birkir Jón Jónsson.


Atli Gíslason.